.comment-link {margin-left:.6em;}

fimmtudagur, júlí 28, 2005

komin heim af skátamóti

Æjæjæj, nú er orðið langt síðan eitthvað hefur verið ritað hér á síðuna mína! Það er bara búið að vera svo rosalega mikið að gera hjá okkur! Ég er orðin 10 mánaða og fór í vigtun og mælingu af því tilefni. Ég er orðin 8810 gr og 71 cm, ekkert smá stór!
Ég og mamma erum nýkomnar úr ferðalagi. Við fórum með Jónu ömmu, Henry afa, Bæring frænda og öllum skátunum á landsmót skáta á Úlfljótsvatni. Ég og mamma sváfum í tjaldi í heila viku! Og mér líkaði það bara vel. Veðrið var alveg rosalega gott bara sól og stundum smá vindur, og svo var þoka á kvöldin. Það hefði eiginlega verið verra ef það hefði verið betra! Ég og mamma fórum með afa og Bæring frænda á afa bíl á mótið, ég var alveg rosalega dugleg í bílnum, var eiginlega ekki neitt að skæla þó að það væri alveg rosalega heitt og við værum alveg hrikalega lengi! Svo var ég bara frjáls á skátamótinu, ég var bara úti að leika mér í heila viku! Ég var að leika við alla krakkana og svo fékk ég fullt fullt af ís :)
En maður verður sko þreyttur á svona skátamótum, ég sofnaði alltaf á kvöldin og svaf alla nóttina í flísgallanum mínum, mamma reyndi fyrstu nóttina að láta mig sofa í kerrupokanum en ég var alveg brjáluð að geta ekki spriklað og hreyft mig svo að ég fékk bara að sofa í flísgallanum í engum svefnpoka og þá gekk þetta fínt. Ég fór á varðeld og kvöldvökur, það var samt svo seint og ég var svo ofboðslega þreytt að á aðalvarðeldinum þá sofnaði ég bara á meðan 6000 manns voru að öskra, stappa, hoppa, klappa og syngja í kringum mig. Svo var flugeldasýning, flottasta flugeldasýning sem enginn hefur séð, eins og afi sagði, en það var svo mikil þoka að flugeldarnir sáust ekki, ég rumskaði ekki einu sinni við það!
Ég fékk tvö flugnabit en ég fann ekkert fyrir þeim, það komu bara tveir rauðir punktar sem fór svo strax aftur, það var annað en hjá mömmu, hún fékk nefnilega flugnabit undir ilina sem ætlaði aldrei að fara!
Ég er orðin rosalega sólbrún, mamma skilur ekkert í þessu, ég er miklu sólbrúnni en hún!
Við fórum heim með krökkunum í rútunni og ég var svakalega góð í bílnum! Ég skældi bara eiginlega ekki neitt!
Þegar við komum heim á þriðjudagskvöldið þá byrjaði ég að vera slöpp og á miðvikudagsmorguninn var ég komin með 40 stiga hita og er ennþá frekar slöpp, með 39 stiga hita og sef bara mest allan daginn.
Mamma ætlar að setja inn nokkrar myndir núna en svo þegar amma og afi koma heim frá Laugavatni ætlar mamma að setja inn fleiri skátamótsmyndir sem afi tók á þeirra myndavél.

Kv, Sigrún Aðalheiður

föstudagur, júlí 01, 2005

lítlill ferðalangur

Nú er ég sko aldeilis búin að fara í ferðalag!
Við ætluðum að fara að Horni, þar sem Guðný langamma átti heima þegar hún var lítil en báturinn hans Henrys afa bilaði á leiðinni svo við fórum bara í Aðalvík, þar sem Bæring langafi átti heima þegar hann var lítill! Þar er nú gott að hafa svona marga sumarbústaði í fjölskyldunni! Ég var svolítið sjóveik á leiðinni, sérstaklega eftir að stýrið bilaði því að þá gat Henry afi ekki ráðið hvernig öldurnar komu á bátinn og við vorum bara að reka. Og öldurnar voru svolítið stórar, meira að segja mamma var svolítið sjóveik, hún sem er aldrei sjóveik!
Það var rosalega gott að vera í Ellubæ, ég var náttúrulega mikið þar í fyrra sumar þegar ég var í bumbunni hennar mömmu.
Ég fór í langan göngutúr í bakpoka, við ætluðum yfir í Skáladal en þorðum ekki alla leið vegna þess að við vissum ekki hvað við hefðum langan tíma áður en flæddi aftur upp að ófærunni. Ég, afi, Jóhanna, Pétur og Birna snérum við fyrst en mamma, pabbi, Jóna amma, Andrea, Kristín frænka og Bæring frændi fóru út í helli sem er hinu megin við ófæruna og biðu svo til að vita hve langan tíma maður hefði til að fara út í Skáladal. Daginn eftir fóru svo allir nema ég og mamma og pabbi í Skáladal.
Skotta litla var ofsalega dugleg í ferðinni. Hún var svo þreytt og sárfætt greyjið undir lokin að hún gat varla gengið, enda búin að hlaupa víkina þvera og endilanga marg oft!
Tímaskynið okkar fór alveg í rugl, eins og tilheyrir nú í svona ferðum, stundum var ég að fara út í vagn að sofa klukkan 8 á kvöldin! Kvöldmatur um miðnætti og hádegismatur klukkan 2. Afi Henry bakaði klatta í kaffitímanum einn daginn og ég fékk að smakka og það var sko rosalega gott! Það var samt klukkan 7 um kvöld! Svona verður þetta hjá okkur norður á Hornströndum, allt fer bara í vitleysu! Síðasta kvöldið fór ég ekki að sofa fyrr en klukkan 1 um nóttina! Enda vaknaði ég ekki fyrra en seint og um síðir. Mömmu og pabba finnst það ágætt svona í sumarfríinu að ég sofi svona lengi!
Jæja, ég var heilmikið úti í góða veðrinu og fór meira að segja í bíltúr á hjólbörum með pabba!
Ég var rosalega dugleg að taka til í blaðastöflunum hennar langömmu, ég var alveg sérstaklega hrifin af Séð og heyrt vegna þess að það er svo skrautlegt. Ég var líka dugleg að æfa mig, núna er ég farin að segja baba og mama og klappa saman lófunum og svo er ég líka orðin dugleg að standa sjálf. Ég tók meira að segja eitt skref frá sófanum til mömmu!
Ég var ekkert sjóveik á heimleiðinni, enda voru þá miklu minni öldur og báturinn ekkert bilaður. Ég fór samt ekki að sofa fyrr en eitt um nóttina þegar við komum heim og ég og pabbi ákváðum að sofa bara út í morgun, mamma fór í vinnuna og við vorum bara heima að stússast við pabbi.
Svo fórum við nefnilega í afmæli til Bærings frænda, en hann er 11 ára í dag. Mér fannst voða gott að fá kökur, við fórum svo ekki úr afmælinu fyrr en rosalega seint vegna þess að mamma sofnaði! Já hún var svona þreytt kerlingin, og enginn gat vakið hana! Hún vaknaði ekki fyrr en klukkan 9. Maður þarf sko að vera orðinn svolítið mikið þreyttur þegar maður getur bara sofið eins og steinn í 11 ára afmæli.
Pabbi er núna úti í skúr að laga bílinn því að við erum að fara í annað ferðalag á morgun! Mamma er nefnilega að fara að spila í brúðkaupi á Tálknafirði á morgun. Við ætluðum að fara í dag og koma til baka á sunnudaginn en mamma og pabbi bara nenntu því ekki, í staðinn ætlum við bara að taka með okkur sundfötin og leggja snemma af stað í fyrra málið, hafa það svo bara notalegt á Tálknafirði og keyra heim aftur um kvöldið.

Jæja, þetta er nú bara orðin lengsta bloggfærslan til þessa. Bæring frændi, til hamingju með afmælið. Og allir að muna að kíkja á myndasíðuna, og svo auðvitað að skrifa í gestabókina.

Kv, Sigrún Aðalheiður

This page is powered by Blogger. Isn't yours?