.comment-link {margin-left:.6em;}

laugardagur, janúar 29, 2005

loksins nýjar myndir

tölvan er komin úr viðgerð og allt orðið eins og það á að vera svo nú eru komnar myndir af punktunum og leikfimiæfinunum og ýmsu öðru.

kv, Sigrún Aðalheiður

Besta rassakrem í heimi!

Ég á besta rassakrem í heimi. Það heitir Barnakrem og er úr jurtum stendur á dollunni, það er framleitt af Urtasmiðjunni á Svalbarðsströnd og mamma keypti það í blómabúðinni sem er hætt. Kremið hefur alltaf virkað vel en núna væri það sko komið í guðatölu ef það væri persóna! Mamma tók nefnilega eftir að ég var ekki með nein ofnæmisútbrot á rassinum og Henry afa datt í hug að það gæti verið eitthvað efni í bleyjunni eða rassakreminu sem væri svona gott, mamma ákvað að það gæti ekki versnað svo að hún bar rassakremið á allan kroppinn minn og viti menn! útbrotin voru öll farin á innan við 12 tímum!
Við mamma mælum sko pottþétt með þessu kremi!

Til hamingju með afmælið Verena frænka í Þýskalandi

kv, Sigrún Aðalheiður

föstudagur, janúar 28, 2005

Nú er það ljótt!

Eins og þið vissuð fór ég í fyrsta sundtímann á þriðjudaginn og fannst alveg æðislega gaman svo þegar við vorum að fara uppúr tók mamma eftir að ég var með einhverja litla rauða punkta á bakinu, spáði ekki meira í það. Svo um kvöldið var ég öll út steypt í punktum! Mamma fór með mig til læknis á miðvikudeginum og hann sagði að þetta væri að öllum líkindum klórofnæmi og við ættum að hætta að fara í sund, prófa kannski aftur eftir 3 mánuði og sjá hvort þetta gerist aftur þá, því að stundum eldist svona víst af krílum eins og mér. Svo að við mamma fáum ekkert að fara í sund! mömmu finnst það alveg hrikalega leiðinlegt, en við gerum bara eitthvað annað skemmtilegt í staðin.
Mamma ætlar svo að reyna að setja inn myndir í kvöld eða á morgun, það er orðið ansi langt síðan síðast.

Elsku Kristín frænka, til hamingju með afmælið þann 26. tölvan var í viðgerð svo að við gátum ekki skrifað þá.

kv, Sigrún Aðalheiður

þriðjudagur, janúar 25, 2005

Sundgarpurinn

Pössunin gekk bara vel á Hafrafelli í gær. Það var rosa mikið rok, mamma fór í Bónus og keypti m.a. klósettpappír sem fauk út í hafsauga áður en hún náði að koma honum í bílinn! Í gærkvöldið prófaði ég nýja sundbolinn minn í baðkarinu heima, hann er soldið stór en dugir alveg. Í dag fór ég svo í fyrsta sundtímann, það var rosalega gaman og ég var svo þreytt þegar ég var búin að ég sofnaði á leiðinni heim og mamma vakti mig svo klukkan rúmlega fimm til að ég myndi borða eitthvað áður en hún þyrfti að fara á lúðrasveitaræfingu, ég var í pössun hjá ömmu og afa í Fjarðarstræti á meðan. Tölvan hennar mömmu er biluð og er í viðgerð svo að núna er hún að skrifa þetta heima hjá ömmu og afa, þess vegna getur hún ekki sett inn myndir í dag en pabbi hennar Hrefnu Dísar ætlar að senda okkur einhverjar sundmyndir frá því í dag, þær koma svo inn á myndasíðuna við fyrsta tækifæri.

kv, Sigrún Aðalheiður

sunnudagur, janúar 23, 2005

ýmsar fréttir af mér

Við mamma fórum heldur betur í göngutúr í gær! Löbbuðum inn í Móholt til ömmu, það var soldið ófært fyrir vagninn frá Grænagarði að Seljalandi en súper mamman og súperstelpan höfðu það, svo ekki sé nú talað um súper vagninn, þetta er eiginlega jeppi!
Við fórum svo í mat til ömmu og afa í Fjarðarstræti, mamma og pabbi fengu kjúkling en ég fékk sko graut með gulrótamauki útí, það var ÆÐISLEGA GOTT!!! Ég fékk svo að gista hjá afa og ömmu og kom ekki heim fyrr en undir hádegi í dag.
Svo í dag komu nágrannar okkar í heimsókn, Erik, Lísbet og Sara hún á síðu á barnalandi, þið getið skoðað hana ef þið klikkið á nafnið hennar.
Við fórum í heimsókn til ömmu í Móholti í dag, keyrandi í þetta skiptið! Elva og Jóhanna voru þar líka í heimsókn og við Jóhanna spjölluðum svolítið saman, hún var eiginlega bara hrædd við mig en jafnaði sig fljótt og stal duddunni minni.
Á morgun fer ég svo í pössun á Hafrafell meðan mamma er í skólanum.

kv, Sigrún Aðalheiður

laugardagur, janúar 22, 2005

Rúllandi, rúllandi, rúllandi, rúllandi...

Núna er ég farin að velta mér bæði af maganum á bakið og af bakinu á magann svo að núna rúlla ég um allt, áðan rúllaði ég undir sófa og sat þar föst, mamma tók mynd og setti á myndasíðuna. Annars er ég búin að vera óþekk að fara að sofa undanfarnar tvær nætur, það er eitthvað að angra mig sem mamma og pabbi fatta ekki hvað er, kannski mallinn, kannski tennur eða bara hreinræktaður pirringur, engin leið að vita.
Heiða frænka og Íris eru að fara aftur heim til sín til Reykjavíkur á morgun, þær komu í smá heimsókn í kvöld að kíkja á mig áður en þær fara, Heiða var nú bara að hugsa um að taka mig með, setti mig bara ofan í tösku!
Mér er boðið í afmæli á morgun til hennar Kötlu Maríu, ég veit ekki ennþá hvort við komumst en við ætlum að reyna það, mamma og pabbi eru eitthvað upptekin á morgun...

kv, Sigrún Aðalheiður

þriðjudagur, janúar 18, 2005

Kisuævintýri

Hvað haldið þið að hafi gerst í gærkvöldi? Ég lá á teppi á gólfinu og var að leika mér með dótið mitt og mamma sat í stofusófanum og horfði á sjónvarpið með annað augað á mér en svo var eitthvað spennandi í sjónvarpinu eða eitthvað svo hún leit ekki á mig í smá stund. Mamma heyrði svo eitthvað skrýtið hljóð og leit á mig þá hélt ég í skottið á KETTI!!! Við eigum ekki einu sinni kött! Þegar mamma stóð upp til að taka mig þá hljóp kötturinn niður í kjallara og síðan hefur ekkert spurst til hans. Mömmu dauðbá auðvitað en ég var ekkert að kippa mér upp við þetta. Mamma og pabbi eru búin að vera í smá kisuvandræðum síðan við fluttum í nýja húsið því að það er einhver köttur sem pissar alltaf á þvottahúsgluggann, þetta er kannski sá sami? Okkur er allavega ekki vel við að annara manna gæludýr komi óboðin í heimsókn svo passið upp á kettina ykkar!

Elsku Jóna amma: Til hamingju með afmælið!

kv, Sigrún Aðalheiður

mánudagur, janúar 17, 2005

Alheimsins grautur sá þykki, sá þunni

Alheimsins grautur sá þykki, sá þunni,
þyrfti að komast frá diski að munni.
Starfinu flýtir, svo stutt verður leiðin,
hin stórvirka og hraðvirka mokstursvél:
skeiðin

muna ekki allir eftir Gleymmérey?

Ég var að fá fyrsta grautinn í gær! Mér fannst hann æðislega góður og var bara alls ekki sátt þegar það var búið úr skálinni, svo fékk ég aftur í kvöld og fór að orga þegar það var búið mamma gaf mér þá soldið að drekka og ég jafnaði mig fljótt, ég á bara aðeins eftir að læra á þetta en ég er voðalega dugleg :)
Ég fór líka í afmæli í gær, Íris frænka var að verða 12 ára. Hún er nú aldeilis orðin stór hún frænka mín!

kv, Sigrún Aðalheiður

Myndir, myndir, myndir

Mamma setti fullt af myndum á myndasíðuna, frá erfidrykkjunni, fyrsta grautnum, afmælinu og svo nokkarar í viðbót, endilega kíkja og svo hefur heldur enginn skrifað í gestabókina síðan 2. janúar!

kv Sigrún Aðalheiður

Frænkur og frændur

Jæja pössunin gekk vel hjá Andreu frænku, ég svaf bara næstum allan tímann! Svo komu mamma og pabbi að sækja mig þegar þau komu úr kirkjugarðinum og við fórum öll í erfidrykkjuna hans afa og þar hitti ég ógrynni af frænkum og frændum, suma hef ég hitt áður en flesta var ég að sjá í fyrsta skipti, það var mjög gaman að hitta alla. Svo voru teknar myndir af fjölskyldunni, mamma ætlar að reyna að setja þær inn á eftir, forritið til að setja inn myndir er eitthvað klikkað.
Núna eru Halldóra amma og Heiða frænka að passa mig inni í Móholti meðan mamma er í skólanum.

kv, Sigrún Aðalheiður

laugardagur, janúar 15, 2005

4 mánaða stelpuskott

Ég er orðin 4 mánaða! Svakalega líður tíminn hratt! Ég fór í aukaskoðun í gær og er orðin 5440g og 61cm, mamma hélt að ég væri kannski ekki að þyngjast nóg en svo var það bara móðursýki í henni eins og svo oft áður! Ég er orðin svakalega dugleg, kann að vera ''aaaa...'' við mömmu og pabba, geri það óspart og finnst það æðislega gaman.
Núna á eftir er ég að fara í pössun til Andreu frænku minnar vegna þess að mamma og pabbi eru að fara í jarðarförina hans Jóhanns afa.

kv, Sigrún Aðalheiður

mánudagur, janúar 10, 2005

Elsku afi minn

Afi minn, Jóhann Magnússon, pabbi hans pabba dó á síðasta föstudag. Hann var búinn að vera mikið veikur en líður núna örugglega betur. Við erum alveg viss um að hann fylgist með afastelpunni sinni og gleðst yfir hvað ég er dugleg :)
Elsku afi, við söknum þín öll svakalega mikið.

kv, Sigrún Aðalheiður

Breytingar á síðunni

Eins og þið sjáið þá hafa verið gerðar þó nokkrar breytingar á síðunni minni yfir jólin. Aðallega eru þetta letur og útlitsbreytingar en einnig hefur verið bætt við linknum sem heitir staðreyndir og er undir ég hérna til hægri á síðunni. Þarna setur mamma inn hvað ég er stór og þung og svona það helsta sem ég læri, þetta setur hún inn jafnóðum með dagsetningum og hvað ég er gömul. Þarna er sem sagt hægt að fylgjast með því helsta sem ég er að læra.

kv, Sigrún Aðalheiður

Stór áfangi!

Hvað haldið þið að ég hafi gert?!? Ég bara velti mér af bakinu yfir á magann! Þetta var á síðasta föstudag (7. jan) svakalega dugleg! Mamma og pabbi eru rosalega ánægð með mig. Núna geri ég ekkert annað. Jafnvel þó að mér hundleiðist að liggja á maganum sný ég mér alltaf beint þangað. Ég virðist líka bara geta kunnað eitt í einu því að eftir að ég lærði að velta mér af bakinu yfir á magann þá er ég hætt að velta mér af maganum á bakið og ligg bara eins og selur þangað til einhver kemur og bjargar mér...


kv, Sigrún Aðalheiður

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Hring eftir hring eftir hring eftir hring...

Það er frekar lítið að frétta af mér núna, ég bara snýst og snýst í rúminu, hvort sem ég vaki eða sef og er núna farin að fara mjög hratt, liggjandi á bakinu get alveg snúið mér í 360 gráður á 10-15 mínútum. Stundum festist ég og þá er ég ekkert kát...
Helga frænka mín segir samt að ég sé fædd jákvæð vegna þess að ég fer ekki endilega að grenja ef eitthvað bjátar á en ég verð óskaplega glöð þegar það lagast :)

Kristín frænka er búin að vera að passa mig tvo síðustu morgna og kemur aftur á morgun, mamma er nefnilega búin að vera að leysa af í Grunnskólanum síðan hann byrjaði, svo byrjar skólinn hennar mömmu í næstu viku, Kristín frænka er þá bráðum að fara til útlanda þannig að ég þarf bara líklegast að fara með mömmu í skólann... það gæti nú verið erfiðara núna heldur en það var í haust þar sem ég er farin að vaka miklu meira og vilja láta leika við mig... Við sjáum bara til hvernig það fer.

Annars ætlum við mamma og pabbi að fara að kíkja til Jóhanns afa í kvöld, hann er aftur kominn á sjúkrahúsið og honum finnst voða gaman að fá afastelpuna sína heimsókn :)

kv, Sigrún Aðalheiður





sunnudagur, janúar 02, 2005

Áramót

Gleðilegt nýtt ár!

Ég, mamma og pabbi borðuðum hjá ömmu og afa í Móholti á gamlársdag svo fór pabbi að vesenast í flugeldasýninunni sem var frestað en ég og mamma kíktum á ömmu og afa í Fjarðarstræti á meðan og borðuðum aftur þar :) Við vorum svo komin inneftir aftur áður en skaupið byrjaði og horfðum á það, þarna var ég reyndar sofnuð og rumskaði ekki einu sinni við lætin klukkan 12, heldur svaf bara á mínu græna eyra alveg til svona 1 en þá voru Jóna amma, Henry afi og Bæring frændi líka komin inn í Móholt til ömmu og afa þar. Ég vaknaði aðeins til að kíkja á fólkið en fór svo bara að sofa aftur og vaknaði ekki fyrr en um hádegi! Það getur verið erfitt að vera svona lítil eins og ég!

kv, Sigrún Aðalheiður

This page is powered by Blogger. Isn't yours?